Skortur á örvun og snertingu, mengun, ofbeldi, léleg næring og áreiti frá snjallsímum og samfélagsmiðlum í lífi foreldra geta allt haft neikvæð áhrif á þroska heila barna á mikilvægustu dögum lífs þeirra – fyrstu 1000 dögunum. Því hefur UNICEF á Íslandi hefur tekið höndum saman með Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við útgáfu á veggspjaldi með ráðum um þroska og umönnun barna. Útgáfan er hluti af alþjóðlegu átaki UNICEF, #EarlyMomentsMatter.
„Að skapa aðstæður fyrir heilbrigðan þroska á heila barns frá fyrstu augnablikum í lífi þess er eitt mikilvægasta verkefni samfélaga um allan heim, líka á Íslandi. Mæðra- og ungbarnavernd á Íslandi er með þeirri bestu í heimi og hjúkrunarfræðingar hér á landi hafa í mörg ár skimað fyrir andlegri vanlíðan hjá konum eftir fæðingu. Nú er einnig skimað fyrir kvíða og þunglyndi á meðgöngu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ekki má þó gleyma hversu veigamiklu hlutverki tengsl milli barns og aðstandenda eftir fæðingu gegna til að skapa heilsteyptan einstakling,“ segir í frétt á vef UNICEF.

#EarlyMomentsMatter fræðsluefni og myndbönd um þroska og örvun ungbarna frá UNICEF má finna hér.
UNICEF er ein af lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í þróunarsamvinnu Íslands. Kjarnaframlög stjórnvalda til stofnunarinnar námu á síðasta ári rúmlega 130 milljónum króna.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.