Samtökin veita árlega nokkur verðlaun fyrir framúrskarandi framlag til jarðvísinda og þá einkum í Bandaríkjunum. Þau verðlaun sem Kristján hlýtur eru kölluð „Florence Bascom Award for Geologic Mapping“. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 2015. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir framlag til jarðfræðikortlagningar sem leitt hefur til nýrrar vísindaþekkingar og/eða uppgötvunar hagnýtanlegra jarðrænna auðlinda og hafa stuðlað að auknum skilningi á hugtökum og grundvallarferlum í jarðfræði.

Kristján hlýtur verðlaunin fyrir brautryðjendastarf í jarðfræðikortlagningu og rannsóknum sem hafa stuðlað að byltingarkenndum breytingum á skilningi manna á jarðfræði og brotakerfum Íslands og Norður-Atlantshafs og fyrir framlag sitt til jarðhitarannsókna og þróunar sem hefur haft gífurlegt þjóðhagslegt gildi á Íslandi.

Kristján hefur verið höfundur að langflestum jarðfræðikortum sem gefin hafa verið út á Íslandi.
Kristján þykir vera frumkvöðull á þessu sviði og fremstur meðal jafningja.
Síðustu árin hefur hann unnið ásamt samstarfsfólki sínu hjá ÍSOR að útgáfu nýrra og nákvæmari korta en áður hafa verið gefin út á Íslandi og kom fimmta kortið út í síðasta mánuði (innsk: júní).
Hægt er að skoða nýjustu kortin í kortavefsjá á heimasíðu ÍSOR.
Viðurkenning Kristjáns nær einnig til hins mikla og ómetalega framlags hans til nýtingar jarðhita á Íslandi til orkuvinnslu. Þótt fjölmargir jarðvísindamenn ÍSOR hafi komið að þeim málum í gegnum tíðina finnst varla sú hitaveita eða það jarðgufuver á Íslandi þar sem Kristján hefur ekki lagt hönd á plóg með rannsóknum, ráðgjöf og óbilandi áhuga sínum í meira en hálf öld.
Það var fyrrverandi samstarfsmaður Kristjáns við rannsóknir á jarðfræði Flateyjarskaga, Barry Voight, áður prófessor við Ríkisháskólann í Pennsylvaníu, sem tilnefndi Kristján til verðlaunanna.