Innlent

Suðurnesjabær hlaut yfirburðakosningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Sandgerði.
Frá Sandgerði. Fréttablaðið/Stefán
Nafnið Suðurnesjabær hlaut yfirburðakosningu í nafnakönnun á nýju sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs. Greint er frá þessu á vef Víkurfrétta en kosið var á milli þriggja nafna,

Auk Suðurnesjabæjar gátu íbúar nýja sameinaða sveitarfélagsins valið á milli Heiðarbyggðar og sveitarfélagsins Miðgarðs.

Suðurnesjabær hlaut 703 atkvæði, eða 75,3 prósent atkvæða, Heiðarbyggð hlaut 57 atkvæði, eða 6,1 prósent atkvæða, og sveitarfélagið Miðgarður hlaut 160 atkvæði, eða 17,1 prósent atkvæða.

Sveitarstjórnin hafði ákveðið að helmingsþátttaka þyrfti að vera til að kosningin yrði bindandi, en Víkurfréttir greina frá því að sú varð ekki raunin.

Rúmlega 933 manns mættu á kjörstað, eða 34,4 prósent, en 2709 voru á kjörskrá.

Víkurfréttir hafa eftir Einari Jóni Pálssyni, forseta bæjarstjórnar, að miðað við hversu margir völdu Suðurnesjabæ þá yrði það nafn staðfest á bæjarstjórnarfundi næstkomandi miðvikudag og sú niðurstaða send Sigurði Inga Jóhannssyni, ráðherra sveitarstjórnarmála.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×