Viðskipti innlent

Stofnendur Íslenska gámafélagsins taka aftur við fyrirtækinu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jón Þórir og Ólafur
Jón Þórir og Ólafur Mynd/Aðsend
Félag í eigu stofnenda Íslenska gámafélagsins, stjórnarformannsins Jóns Þóris Frantzsonar og Ólafs Thordersen, hefur fest kaup á meirihluta hlutafjár í félaginu og dótturfélagi þess, Vélamiðstöðvarinnar. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Í tilkynningu segir að Jón Þórir hafi tekið aftur við sem forstjóri félagsins og Ólafur við stöðu aðstoðarforstjóra, en hann var áður framkvæmdastjóri þjónustusviðs Íslenska gámafélagsins. Eftir viðskiptin eru þeir Jón Þórir Frantzson og Ólafur Thordersen stærstu einstöku hluthafar félagsins.

Söluferli Íslenska gámafélagsins hófst í sumar þegar boðnir voru til sölu allir hlutir í félaginu í eigu eignarhaldsfélagsins Gufuness og framtakssjóðsins Auðar I slf. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku hafði umsjón með söluferlinu.

Í tilkynningu er haft eftir Jóni Þóri að þessi niðurstaða sé honum mikið ánægjuefni.

„Og má kannski segja að fyrirtækið sé komið aftur heim, í hendur okkar sem stóðu að stofnun þess á sínum tíma. Ég hlakka til að halda áfram því góða og mikilvæga starfi sem unnið er hjá Íslenska gámafélaginu og vinna að frekari framgangi og uppbyggingu félagsins, með því góða fólki sem hér starfar,“ segir Jón Þórir.

Um 300 manns starfa hjá Íslenska gámafélaginu og dótturfélögum þess, en aðalstarfsemi Íslenska gámafélagsins er almenn sorphirða og útleiga á gámum, bifreiðum og tækjum. Velta félagsins er tæpir 5 milljarðar króna, en heildareignir þess námu 5,5 milljörðum í lok árs 2017. Viðskiptavinir eru um 4.500 talsins og samanstanda af 2.800 fyrirtækjum og stofnunum, 1.700 einstaklingum og 23 sveitarfélögum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×