Jón Þór Hauksson var í dag kynntur sem þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Hann segist stoltur og þakklátur fyrir tækifærið.
„Ég er mjög stoltur og ánægður að hafa fengið tækifærið til þess að sinna þessu verkefni næstu árin,“ sagði Jón Þór er ráðningin var kunngjörð. Hann gerði tveggja ára samning við KSÍ með möguleika á framlengingu fram yfir næsta stórmót komist liðið þangað.
„Ég hef fylgst mjög vel með þessu liði undan farin ár sem stuðningsmaður og aðdáandi og er gríðarlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna þetta starf næstu árin.“
Ian Jeffs verður Jóni til aðstoðar og sagðist hann hafa barist fyrir því að fá Jeffs inn. Hann hefur verið við þjálfun kvennaliðs ÍBV síðustu ár og kemur inn með mikla reynslu úr kvennaboltanum.
Jón Þór sagði mikilvægt að fá Jeffs inn þar sem hann sjálfur hefur ekki reynsluna úr kvennaboltanum.
„Ég fyrst og fremst hlakka mikið til þess,“ sagði Jón Þór aðspurður hvernig honum litist á að fara að þjálfa konur. „Þetta eru frábærir leikmenn og frábært lið.“
„Ég hef komið að uppbyggingarstarfi bæði í karla og kvennafótbolta. Það er auðvitað alltaf þannig þegar þú tekur við nýju liði að það eru mismunandi aðstæður og þú þarft að kynnast nýjum leikmönnum, komast að kostum og göllum og mismunandi veikleikum.“
„Fótbolti er bara fótbolti.“
Jón Þór á von á að hans fyrsta verkefni verði í nóvember, það gæti þó orðið bara æfingaverkefni fyrir leikmenn sem spila á Íslandi. Fyrstu leikirnir undir hans stjórn fara líklega fram í janúar.
Næsta undankeppni liðsins hefst í september 2019, undankeppni EM 2021.
„Gríðarlega stoltur og þakklátur fyrir tækifærið“
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Mest lesið

Hafa verið þrettán ár af lygum
Enski boltinn

Eru þetta stærstu félagsskiptin síðan Pétur fór í KR?
Íslenski boltinn


Barðist við tárin þegar hann kvaddi
Íslenski boltinn



Kennir sjálfum sér um ófarir Gísla
Handbolti


„Þetta er einstakur strákur“
Íslenski boltinn

Víkingar kæmust í 960 milljónir
Fótbolti