„Við vissum lítið hvað við vorum að fara út í og þeir náðu að draga allt tempó úr leiknum og við féllum niður á þeirra hraða. Svo var þetta bara tímaspursmál hvenær við næðum yfirhöndinni og þetta var bara þolinmæðisverk."
Þetta sagði fyrirliðinn Aron Pálmarsson eftir 35-21 sigur Íslands gegn Grikklandi. Aron skoraði fjögur mörk og átti fjölda stoðsendinga í leiknum.
„Við vorum bara skítlélegir í fyrri hálfleik og þeir voru örugglega að hitta á góðan dag. Eftir að við ræddum saman í hálfleik, ákváðum við að setja í næsta gír og það gekk upp.“
Það skiptir máli, að mati Arons, að klára svona leiki sannfærandi.
„Klárlega. Það er leiðinlegt að vinna leiki ef maður er á 60-70% hraða og leikurinn endar bara í einhverjum nokkrum mörkum. Þá taka við leiðinlegir videofundir og tilfinningin er ekkert sérstök eftir svoleiðis leiki.”
„Maður á að bera virðingu fyrir öllum leikjum, sérstaklega landsleikjum. Svona leikir geta bara verið kúnst fyrir hausinn en mér fannst við klára þetta vel í seinni hálfleiknum.”
Snúinn leikur bíður Arons og strákanna í Tyrklandi um næstu helgi.
„Það verður stemmari í Ankara í næsta leik! Frábær heimavöllur og skemmtilegt að spila í svoleiðis umhverfi. Þeir eru með töluvert betri leikmenn á pappírunum og það verður krefjandi að spila þarn. Við förum að sjálfsögðu þangað til að sækja sigur,“ sagði Aron Pálmarsson.

