Erlent

Annar grunsamlegur pakki var sendur til CNN

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfuðstöðvar CNN í Atlanta. Pakkinn var stílaður á skrifstofurnar.
Höfuðstöðvar CNN í Atlanta. Pakkinn var stílaður á skrifstofurnar. Vísir/EPA
Bandaríska alríkislögreglan FBI segir að grunsamlegur pakki sem var stílaður á höfuðstöðvar CNN-fréttastöðvarinnar í Atlanta líkist þeim sem voru sendir nokkrum áberandi gagnrýnendum Donalds Trump forseta og innihéldu rörsprengjur. Pakkinn uppgötvaðist á pósthúsi og barst ekki stöðinni.

Karlmaður á sextugsaldri sem er yfirlýstur stuðningsmaður Trump var handtekinn fyrir að hafa sent fjórtán rörsprengjur á pólitíska andstæðinga forsetans og fjölmiðla í síðustu viku. Hann á að koma fyrir dómara í fyrsta skipti í dag.

Eina rörsprengjuna sendi maðurinn á skrifstofu CNN í New York en sendingin var stíluð á John Brennan, fyrrverandi forstjóra leyniþjónustunnar CIA, sem er álitsgjafi á stöðinni.

Reuters-fréttastofan segir að sprengjusveit FBI í Atlanta og fleiri löggæslustofnanir hafi brugðist við þegar öryggisleit póstsins uppgötvaði pakkann. Jeff Zucker, forseti CNN, segir að engin hætta hafi verið á ferðum fyrir starfsmenn stöðvarinnar.

Trump forseti hefur þverneitað að bera nokkra ábyrgð á að hafa skapað tortryggni og úlfúð í samfélaginu sem gæti hafa stuðlað að því að tilræðismaðurinn sendi andstæðingum hans sprengjur. Áður en tilræðismaðurinn var handtekinn gaf forsetinn samsæriskenningum um að sprengjurnar væru gabb undir fótinn. Í gær gagnrýndi Trump svo harðlega Tom Steyer, fjárhagslegan bakhjarl Demókrataflokksins, sem var einn þeirra sem sprengja var stíluð á.


Tengdar fréttir

Trump þvertekur fyrir að hann beri ábyrgð

Hann bar sprengjusendingarnar saman við skotárás stuðningsmanns Bernie Sanders á Repúblikana þar sem þeir voru að æfa sig fyrir hafnarboltaleik í fyrra.

Voveiflegir atburðir í Bandaríkjunum

Bréfsprengjur hafa í vikunni verið sendar á áhrifamenn innan bandaríska vinstrisins og á fréttastofu CNN. Trump forseti ítrekað gagnrýnt skotmörkin. Forsetinn fordæmdi árásina harðlega og sagði hana svívirðilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×