Erik Hamrén vildi ekki gefa upp hvort hann héldi sig við 4-5-1 leikkerfið eða færi aftur í 4-4-2 á móti Sviss í Þjóðadeildinni annað kvöld.
Hamrén stillti upp í 4-4-2 á móti Sviss í september, ákvörðun sem var nokkuð gagnrýnd eftir að liðið hafði spilað útfærslu af 4-5-1 í síðustu leikjum Heimis Hallgrímssonar.
Hamrén fór í 4-5-1, eða 4-4-1-1 eins og hann lýsti því sjálfur, á móti Belgíu og Frakklandi og var frammistaða liðsins mun betri í þeim leikjum.
Á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag var Hamrén spurður að því hvort hann ætlaði aftur í 4-4-2 á móti Sviss.
„Þetta snýst ekki um hvað þú kallar þetta í tölum, þetta snýst um hvernig við vinnum á vellinum,“ sagði Hamrén á fundinum.
„Það er ekki víst að leikkerfið hafi verið ástæðan fyrir því hversu illa liðið spilaði. Þó leikkerfið hafi verið 4-4-1-1 í síðustu tveimur leikjum þá er liðið meira í 4-4-2 þegar það verst.“
Hamrén: Skiptir ekki máli hvað þú kallar uppstillinguna í tölum
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
