Birkir Bjarnason segist frekar vilja spila á miðjunni heldur en úti á köntunum. Hann getur þó vel spilað á kantinum og líður vel þar með íslenska landsliðinu.
Birkir spilar miðsvæðis með félagsliði sínu Aston Villa. Hjá íslenska landsliðinu hefur hann oftar en ekki verið notaður úti á köntunum þar sem Aron Einar Gunnarsson, Emil Hallfreðsson og Gylfi Þór Sigurðsson hafa átt stöðurnar inni á miðjunni vísar.
Birkir var hins vegar við hlið Rúnars Más Sigurjónssonar á miðjunni gegn Frökkum.
Á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag var Birkir spurður út í það hvort hann vildi frekar vera inni á miðjunni.
„Persónulega líður mér betur inni á miðjunni. Það er skemmtilegra að spila þar og vera meira í boltanum,“ sagði Birkir.
„En mér hefur alltaf liðið vel úti á kantinum með landsliðinu og ég hef leyst það vel.“
„Ég spila þar sem þjálfarinn þarf á mér að halda.“
Emil Hallfreðsson verður ekki með gegn Sviss í Þjóðadeildinni á morgun vegna meiðsla svo það er líklegt að Birkir fái aftur að vera miðsvæðis í þeim leik.
Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 18:45 á Laugardalsvelli og er í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.

