Handbolti

Seinni bylgjan: Átakanlegt að sjá hrunið í sóknarleik Hauka

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Maria Pereira átti fínan leik en það dugði ekki til.
Maria Pereira átti fínan leik en það dugði ekki til. vísir
Íslands- og bikarmeistarar Fram unnu níu marka sigur á Haukum, 31-22, í fjórðu umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í síðustu viku en Haukar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 16-13.

Haukaliðið hrundi algjörlega í seinni hálfleik þar sem að Íslandsmeistararnir tóku yfir leikinn og unnu hann á endanum með níu marka mun. Ellefu marka sveifla í seinni hálfleik.

„Haukar réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn var flottur og Maria Pereira var frábær eftir mjög dapran leik á móti Val. Hún ætlaði ekki að láta það gerast aftur,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson um leikinn í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

„Haukar skora bara sex mörk í seinni hálfleik. Þá hefði maður haldið að markvörður Fram hefði lokað búrinu en svo var nú ekki. Þetta voru allt bara tæknifeilar, skot í vörn, ruðningur og átakanlegt að sjá hrunið í sóknarleik Hauka. Ég skil ekki hvað gerist þarna.“

„Það hlýtur að vera ótrúlega pirrandi að vera með Íslandsmeistarana svona í vasanum en tapa. Fram yfirspilaði ekkert Haukana þannig. Leikurinn bara hrundi hjá Haukum,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

Alla umræðuna um leikinn má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×