Erlent

Tala látinna í Indónesíu hækkar enn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi stúlka fannst á lífi í Palu í gær.
Þessi stúlka fannst á lífi í Palu í gær. vísir/epa
Staðfest er að 844 hafi látist af völdum jarðskjálftans sem reið yfir Indónesíu á föstudag. Þetta kom fram á blaðamannafundi indónesískra yfirvalda sem hófst upp úr klukkan sjö að íslenskum tíma í morgun, en ljóst er að sú tala á eftir að hækka, þar sem óttast er hundruð séu grafnir í leðju og drullu á hamfarasvæðunum.

Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður yfirvalda, sagði að stórvirkar vinnuvélar væru nú komnar að þau svæði sem urðu hvað verst úti í skjálftanum en þær verða til að mynda notaðar í borginni Palu til þess að leita í rústum verslunarmiðstöðvar og hótels. Ekki hefur verið leitað í rústum bygginganna þar sem þær eru taldar óstöðugar þannig að ekki er óhætt fyrir björgunarfólk að fara þangað inn.

 

Sutopo sagði að yfirvöld enn takmarkaðar upplýsingar um ástandið á þeim svæðum sem fóru verst út úr skjálftanum og þeirri gríðarmiklu flóðbylgju sem fylgdi í kjölfarið. Þá liggja rafmagns- og símalínur enn niðri í Palu, Donggala, Sigi og Parigi Moutong.

Samkvæmt því sem kom fram á blaðamannafundinum voru 144 erlendir ríkisborgarar staddir í Palu og Donggala þegar jarðskjálftinn reið yfir.

Indónesísk stjórnvöld hafa ákveðið að þiggja boð annarra ríkja um björgunaraðstoð en neyðaraðstoð hefur borist illa og seint til skjálftasvæðanna, bæði vegna vega sem eyðilögðust í hamförunum sem og vegna þess hversu seint yfirvöld í landinu tóku ákvörðun um að þiggja aðstoð.

„Það hefur enginn hjálp borist. Við höfum misst allt,“ er haft eftir einum íbúa á skjálftasvæðunum.


Tengdar fréttir

Tala látinna hækkar hratt

Tala látinna hækkar hratt í Indónesíu eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna á föstudag og óttast yfirvöld að ástandið sé mun verra en búist hefur verið við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×