Enski boltinn

Jón Rúnar: Væri nær að þetta fólk tæki sig til og sinnti því sem það hefur vit á

Anton Ingi Leifsson skrifar
FH lauk keppni í Pepsí deild karla í 5.sæti á dögunum. Það þýðir að liðið spilar ekki í Evrópukeppninni á næsta tímabili. Vonbrigði segir formaður knattspyrnudeildar FH, Jón Rúnar Halldórsson.

„Við erum ekki þar sem við ætluðum að vera og það er hægt að kalla það vonbrigði. Það eru að sjálfsögðu vonbrigði er maður nær ekki þeim árangri sem maður ætlaði sér að vera á,” sagði Jón Rúnar í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta er niðurstaðan og við hér erum byrjaðir að vinna út frá því,” en FH fer ekki í neinn niðurskurð þrátt fyrir að hafa misst af Evrópukeppni þetta tímabilið:

„Við höldum áfram þeirri stefnu sem við hefum keyrt hingað til; að vera á toppnum. Við erum á toppnum þó að við séum ekki í Evrópu. Það er enginn dauði hér, enginn meitt sig, enginn slys og við ætlum að vera í Evrópu á þar næsta ári.”

Ólafur Kristjánsson tók við FH fyrir tímabilið og hann verður áfram við stjórnvölinn í Kaplakrika. Jón er ánægður með störf FH-ingsins uppalda.

„Auðvitað geturu klínt einhverju á hann hér og þar en heilt yfir þá erum við sáttir. Við vissum það að við værum að fara inn í breytingar og við töldum að þær tæku skemmri tíma en þær gerðu.”

„Það er bara svona með hlutina að stundum seinkar þeim útaf einhverju. Hér stöndum við og ég held að menn hafi séð það hvað koma skal. Við stóðum okkur vel á endanum.”

Einhversstaðar hefur verið rætt og ritað um slæma fjárhagsstöðu FH en Jón Rúnar segir þá umræðu á algjöurm villigötum.

„Það er fullt af fólki sem tjáir sig mikið um okkar fjárhagsmál. Fæst af því hefur hugmynd um það hvað það er að tala um. Flest af því sem tala eru út í skurði með þetta. Það væri nær að þetta fólk tæki sig nú til og sinnti því sem það hefur vit á,” sagði Jón Rúnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×