Innlent

Skamma Fjarðabyggð fyrir steinristur á Stöðvarfirði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bæjarráð Fjarðabyggðar ásamt nýjum bæjarstjóra, Karli Óttari Péturssyni.
Bæjarráð Fjarðabyggðar ásamt nýjum bæjarstjóra, Karli Óttari Péturssyni. Mynd/fjarðabyggð
Fjarðabyggð fór út fyrir valdmörk sín þegar listamaðurinn Kevin Sudeith fékk leyfi til að gera listaverk í kletta á Stöðvarfirði.

Þegar Sudeith óskaði eftir leyfinu benti umhverfisstjóri sveitarfélagsins á að fyrir því þyrfti framkvæmdaleyfi sem meðal annars væri háð samþykki Umhverfisstofnunar (UST). Við meðferð málsins kvað skipulagsstjóri Fjarðabyggðar hins vegar upp úr með að ekkert slíkt leyfi þyrfti. Umhverfisnefndin gerði enga athugasemd við erindið í apríl og fékk Sudeith grænt ljós á listgjörninginn.

Eftir bréfaskipti UST og Fjarðabyggðar um málið hefur stofnunin nú undirstrikað í nýju bréfi að sveitarfélagið hafi farið út fyrir valdmörk sín og veitt leyfi sem ekki sé unnt að veita samkvæmt lögum. Sveitarfélagið er sagt hafa brugðist leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart Kevin Sudeith sem framið hafi refsiverð brot á náttúruverndarlögum með „áletrunum í náttúrumyndanir“. Algerlega er hafnað þeim rökum Fjarðabyggðar að umræddir klettar séu ekki náttúrumyndanir.

„[UST] lítur svo á að skortur á vönduðum stjórnsýsluháttum sveitarfélagsins hafi stuðlað að því að umræddur listamaður skrapaði í og málaði á umræddar náttúrumyndanir.“

Þá vill UST að vafaatriði verði framvegis borin undir stofnunina. „Um nauðsyn þess stendur nú varanlegur minnisvarði í klettunum í landi Landa í Stöðvarfirði.“

Ekki náðist í Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóra Fjarðabyggðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×