Eric Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, byrjaði blaðamannafund sinn í dag á því að skammast yfir frammistöðu strákanna okkar á móti Sviss og Belgíu í undankeppni EM 2020.
Ísland tapaði 6-0 ytra fyrir Sviss og 3-0 fyrir Belgíu heima þrátt fyrir að frammistaðan í seinni leiknum væri betri. Hann var eðlilega mjög ósáttur með leikinn í Sviss.
„Hræðileg frammistaða og í 3-0 gáfumst við upp. Það er ekki gott og ekki sú mynd sem ég hafði af íslenska liðinu,“ sagði Hamrén í upphafsræðu sinni sem að hann skrifaði niður og las upp af miklum eldmóði.
„Við sýndum betra viðhorf sem lið á móti Belgíu og héldum áfram að vinna saman sem lið. Frammistaðan var betri en ekki nógu góð. Til dæmis í mörkunum þeirra áttum við að gera miklu betur.“
„Lið eins og Belgía, Sviss og Frakkland refsa þér ef að þú spilar svona illa,“ sagði Hamrén.
Íslenska liðið á eftir tvo leiki í Þjóðadeildinni en svo hefst undankeppni EM 2020 í mars. Markmiðið er að komast á stóra sviðið þriðja skiptið í röð.
„Markmiðið okkar er að komast á EM 2020. Dregið verður 2. desember og undankeppnin hefst í mars á næsta ári. Úrslitin í Þjóðadeildinni skipta máli upp á styrkleikaröðun og því viljum við ná góðum úrslitum í næstu tveimur leikjum,“ sagði Hamrén.
„Næstu tveir leikir eru mjög mikilvægir til að undirbúa okkur fyrir stóra markmiðið sem er að komast á EM 2020,“ sagði Eric Hamrén.
Blaðamannafundinn má sjá í beinni hér.
Hamrén: Við gáfumst upp sem er ekki sú mynd sem ég hef af Íslandi

Tengdar fréttir

Bein útsending: Hamrén velur hópinn fyrir leikina gegn Frakklandi og Sviss
Eric Hamrén velur landsliðshópinn sem mætir heimsmeisturunum ytra.

Landsliðshópurinn valinn í dag: Fá ungu mennirnir kallið frá Hamrén?
Arnór Sigurðsson er líklegur til að spila sinn fyrsta landsleik á móti Frakklandi eða Sviss.