Sport

Khabib biðst afsökunar á ólátunum eftir sigurinn á Conor

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Khabib sigraði Conor í UFC 229 í nótt
Khabib sigraði Conor í UFC 229 í nótt Vísir/Getty
UFC léttivigtarmeistarinn Khabib Nurmagomedov hefur beðist afsökunar á ólátunum sem brutust út í kjölfar sigur hans á Conor McGregor í nótt.



Allt varð vitlaust í Las Vegas í nótt eftir bardaga Khabib og Conors en eftir að Khabib sigraði Conor brutust út hópslagsmál.



Khabib var frábær í bardaganum sjálfum og átti sigurinn svo sannarlega skilið. En eftir að Conor gafst upp lét Khabib gamminn geysa yfir aðstoðarmenn Conors og fleygði gómnum sínum í átt að þeim.



Næst stökk hann yfir búrið og réðst á aðstoðarmenn Conors. Á sama tíma tóku þrír vinir Khabib upp á því að lauma sér inn í búrið og réðust þeir að Conor. Ótrúlegar senur.



Þeir sem réðust á Conor voru handteknir en sleppt skömmu síðar þar sem Conor ákvað að kæra þá ekki.



Khabib hefur nú beðist afsökunar á slagsmálunum.



„Mig langar að biðja íþróttanefndina afsökunar. Afsakið Las Vegas. Ég veit að þetta var ekki mín besta hlið. Þetta er ekki mín besta hlið, ég er mennskur,“ sagði Khabib.



Khabib skilur hins vegar ekki hvers vegna fólk var hissa á því að hann hafi yfirgefið búrið.



„Ég skil ekki hvernig fólk getur talað um að ég hafi stokkið úr búrinu. Hann talaði um trú mína, land mitt og föður. Hann kom til Brooklyn og var með ólæti. Hann drap næstum því fólk! Spáið í það. Af hverju er fólk að velta fyrir sér hvers vegna ég yfirgaf búrið?“



„Mig langar að segja eitt. Ég held að fjölmiðlar hafa breytt MMA. Það er virðing í þessari íþrótt. Þú átt ekki að tala illa um aðra í þessari íþrótt. Ég vil breyta íþróttinni. Ég vil ekki að fólk tali illa um andstæðinginn, eins og að tala illa um föður hans, eða trú. Þú getur ekki talað um trú, þú getur ekki talað um þjóð, þú getur ekki talað um svona hluti. Fyrir mitt leyti, þá er þetta mjög mikilvægt.“

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×