Heimir Már Pétursson fréttamaður fær Óla Björn í Víglínuna á Stöð 2 og Vísi í hádeginu til að ræða þessi mál og fleiri pólitísk álitaefni ásamt Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingflokksformanni Pírata. En hún talaði tæpitungulaust í umræðum um skýrslu til að auka traust í stjórnmálum á Alþingi í vikunni.
Þá mæðir töluvert á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þessa dagana, ekki hvað síst vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands töpuðu máli í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Dómurinn ógilti synjun á beiðni Ölmu Gunnarsdóttur háls-, nef-, og eyrnalæknis um aðild að rammasamningi SÍ við sérfræðilækna. Það var gert að áeggjan heilbrigðisráðherra sem vill auka vægi sérfræðinga í fullu starfi í hinni opinberu heilbrigðisþjónustu og endurskoða stefnuna varðandi samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga.
Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl. 12:20.