Handbolti

Nýliðarnir skelltu Haukum og ÍBV

Anton Ingi Leifsson skrifar
HK með magnaðan sigur í Eyjum.
HK með magnaðan sigur í Eyjum. mynd/fésbókarsíða HK
Nýliðar HK í Olís-deild kvenna gerðu sér lítið fyrir og unnu eins marks sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum í dag, 22-21.

Flestir bjuggust væntanlega við auðveldum Eyjasigri en HK tapaði sínum fyrsta leik í Olís-deildinni nokkuð örugglega á heimavelli gegn Haukum.

HK-stúlkur mættu ákveðnar til leiks í dag og voru yfir í hálfleik, 13-11. Þær unnu svo með marki á síðustu sekúndunni en þá skoraði Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir, 22-21.

HK er því komið á blað í Olís-deildinni en Eyjastúlkur eru einnig með tvö stig eftir sigur á Stjörnunni í fyrstu umferð deildarinnar.

Arna Sif Pálsdóttir var markahæst hjá ÍBV með átta mörk en Díana Kristín Sigmarsdóttir gerði fjögur fyrir gestina gegn sínum gömlu félögum.

Það voru einnig óvænt úrslit á Ásvöllum þar sem hinir nýliðar deildarinnar, KA/Þór, gerðu sér lítið fyrir og skelltu Haukum, 24-23.

Nýliðarnir frá Akureyri voru tveimur mörkum yfir í hálfleik 15-13. Ekki var mikið skorað í síðari hálfleik en afar sterkur sigur gestanna.

Berta Rut Harðardóttir gerði átta mörk fyrir Haukastúlkur en Marta Hermannsdóttir gerði sjö fyrir norðanstúlkur og Sólveig Lára Kristjánsdóttir sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×