Sport

Kveikja í hlaupaskónum vegna andlits auglýsingaherferðar Nike

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Colin Kaepernick tók fyrstur af skarið og lagðist á hné á meðan þjóðsöngurinn var sunginn til þess að mótmæla kynþáttamisrétti. NFL-deildin sektar nú lið ef leikmenn þess leika þetta eftir.
Colin Kaepernick tók fyrstur af skarið og lagðist á hné á meðan þjóðsöngurinn var sunginn til þess að mótmæla kynþáttamisrétti. NFL-deildin sektar nú lið ef leikmenn þess leika þetta eftir. Vísir/EPA
Ákvörðun íþróttavörurisans Nike um að gera Colin Kaepernick að nýju andliti auglýsingaherferðar sinnar hefur farið fyrir brjóstið á sumum viðskiptavinum þess. Einhverjir þeirra hafa birt myndir af sér að brenna eða klippa í sundur klæðnað frá Nike.

Nike tilkynnti í gær að NFL-leikstjórnandinn Colin Kaepernick væri nýtt andlit auglýsingaherferðar íþróttamerkisins Nike. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu. 

Kaepernick hefur vakið mikla athygli fyrir ötula baráttu gegn kynþáttamisrétti og lögregluofbeldi. Hann hefur til dæmis sýnt andóf með því að krjúpa á hné þegar bandaríski þjóðsöngurinn var sunginn fyrir leiki. Andófið hefur þó reynst Kaepernick dýrkeypt því NFL-liðin hafa sett hann út í kuldann.

Í tilkynningu sem Nike sendi frá sér er því haldið fram að Kaepernick sé á meðal áhrifamestu íþróttamönnum sinnar kynslóðar.

Ekki eru þó allir ánægðir með ákvörðun íþróttarisans Nike því fjölmargir hafa lýst yfir óánægju sinni með framtakið undir myllumerkinu #JustBurnIt á samfélagsmiðlum. Það er leikur að orðum því slagorð Nike er „Just do it,“ sem gæti útleggst sem „kýldu bara á það“.

Í tístum og stöðuuppfærslum hafa andstæðingar leikstjórnandans lýst því yfir að þeir hyggist eyðileggja og brenna Nike-vörurnar. Rúmlega 800 tíst undir myllumerkinu #JustBurnIt hafa birst á samskiptamiðlinum Twitter frá því tilkynningin var gefin út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×