Fótbolti

Gylfi stoltur að bera bandið en Aron fær það um leið og hann kemur aftur

Tómas Þór Þórðarson í St. Gallen skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson verður vonandi í stuði í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson verður vonandi í stuði í dag. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, verður fjarri góðu gamni í dag þegar að Ísland mætir Sviss í fyrsta leik liðanna í Þjóðadeildinni í St. Gallen klukkan 16.00 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Íslenska liðið er án nokkurra lykilmanna en þeir Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason eru allir meiddir og ekki í hópnum. Þá er Emil Hallfreðsson ekki klár í slaginn þó hann sé með í för.

„Það er ekki fullkominn undirbúningur að vera án svona margra lykilmanna. Þetta eru menn sem eru vanir því að byrja. Við erum svo með nýjan þjálfara og mikið af leikmönnum sem hafa verið í burtu í einhvern tíma,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Vísi.

Fyrirliðinn fær bandið sitt aftur.Vísir/Getty

Mikill heiður

Vegna meiðslanna eru komnir inn strákar eins og Guðlaugur Victor Pálsson og Rúnar Már Sigurjónsson sem hafa verið út úr hópnum. Victor um langa hríð en Rúnar Már missti af sæti í HM-hópnum á síðustu metunum.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir þessa leikmenn sem hafa verið út úr hópum að standa sig vel og halda sig í honum með nýjum þjálfara. Annars er mikilvægt fyrir okkur að byrja vel í þessari keppni,“ segir Gylfi sem ítrekar að ekki hafa orðið miklar breytingar í undirbúningi landsliðsins.

„Hann reynir að halda í það sem að við höfum  gert vel en nýr þjálfari kemur með sínar hugmyndir um hvernig á að spila fótbolta. Fyrir okkur er þetta allt svipað samt,“ segir hann.

Gylfi fagnar því að bera fyrirliðabandið á morgun en það er aðeins einn maður sem á að bera það þegar að hann er heill. Gylfi verður svo inn á miðri miðjunni á í dag.

„Það er mikill heiður að vera fyrirliði en Aron er samt okkar fyrirliði. Þegar að hann kemur til baka tekur hann bandið. Án þess að vera að uppljóstra of miklu þá býst ég við að spila á miðri miðjunni þar sem að mér líður mjög vel,“ segir hann en hvað ætlar íslenska liðið að gera í dag?

„Ég vil ekki vera að setja nein markmið fyrir okkur en segjum bara að góð byrjun yrði góð byrjun,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×