Umrætt könnunarpróf er að finna á vef Menntamálastofnunar en fram undan er endurfyrirlögn samræmdra próf í íslensku og ensku í tíu grunnskólum. Nemendur lentu í tæknilegum vandræðum þegar prófin voru haldin í mars síðastliðnum en 130 skólar völdu að leggja prófin fyrir aftur síðastliðið vor.
Eiríkur telur það klárt mál að prófin undanfarin ár hafi ekki verið í samræmi við námskrá. Meðal annars hafi verið sýnt fram á það í nýlegri meistararitgerð Ýrar Þórðardóttur. Það sem Eiríkur gagnrýnir sérstaklega er málnotkunarhluti prófsins.
„Ég hef auðvitað ekki séð sjálft prófið en maður hlýtur að ætla að kynningarprófið gefi rétta mynd. Annars væri verið að leiða nemendur á villigötur. Það eru kolrangar áherslur í þessum hluta prófsins.“

Hann segir það sérstaklega slæmt að beinlínis sé verið að veiða nemendur í gildrur, meðal annars með því að lauma tveimur villum í sömu spurningu. „Það er verið að athuga hvað nemendur kunna ekki, frekar en hvað þeir kunna.“
Þá telur Eiríkur að með prófinu sé ekki verið að prófa kunnáttu og þekkingu nemenda heldur máltilfinningu þeirra, sem sé allt annað.
„Máltilfinning barna mótast af því málumhverfi sem þau alast upp í. Það má líkja þessu við trúna. Börn taka oft þá trú sem foreldrarnir hafa og það má ekki mismuna eftir því. Börn sem eiga menntaða foreldra sem tala „rétt mál“ standa betur að vígi því þau heyra þetta viðurkennda mál á máltökustigi.“