Ósóttir miðar á leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeild UEFA fara á sölu á hádegi í dag. Leikurinn fer fram annað kvöld.
Knattspyrnusambandið greinir frá því á vefsíðu sinni að sala ósóttra miða hefjist klukkan 12:00 í dag, mánudag, á tix.is.
Leikur Íslands og Belgíu er fyrsti heimaleikur Íslands í Þjóðadeild UEFA. Ísland hóf leik í keppninni á laugardaginn með 6-0 tapi fyrir Sviss ytra.
Belgía er bronsliðið frá HM og því ljóst að um mjög erfiðan andstæðing er að ræða.
Leikurinn hefst klukkan 18:45 annað kvöld, þriðjudaginn 11. september, á Laugardalsvelli.
