Könnun Washington Post og ABC var gerð vikuna eftir að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump, var dæmdur fyrir skattalagabrot og fjársvik, og Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump, játaði sig sekan um kosningalagabrot og bar vitni um að Trump hefði skipað fyrir um brotin.
Samkvæmt henni voru 36% ánægð með störf forsetans en 60% óánægð. Svör við öðrum spurningum sem lögð voru fyrir í könnuninni voru forsetanum einnig eindregið í óhag.
Þannig voru 47% svarenda óánægðir með hvernig Trump hefur tekið á efnahagsmálum á móti 45% sem voru ánægð þrátt fyrir að flestir hagvísar hafi verið jákvæðir undanfarin misseri.
Mun fleiri telja að spilling í bandarískum stjórnmálum hafi aukist frá því að Trump tók við völdum en þeir sem telja hana hafa minnkað, 45% á móti 13%. Tæplega tveir af hverjum fimm taldi spillinguna engu meiri eða minni en áður.
Þá voru flestir svarendur könnunarinnar á því að rannsóknir á Trump og bandamönnum hans sem forsetinn hefur ítrekað fordæmt og sagt byggja á fölskum forsendum vera réttmætar. Tæplega tveir af hverjum þremur styðja rannsókn Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, á Trump og félögum en 29% eru andsnúin henni.
Meirihluti svarenda telur að Trump hafi reynt að hafa afskipti af rannsókninni, 53% á móti 35% sem telja forsetann ekki hafa reynt að grípa inn í hana. Afgerandi meirihluti taldi einnig málið gegn Manafort réttmætt og er andsnúið því að Trump náði hann.
Mikill meirihluti telur einnig að Trump ætti ekki að reka Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, og mun fleiri segja „halda með“ Sessions í útistöðum þeirra. Trump hefur um margra mánaða skeið gagnrýnt Sessions, fyrst og fremst vegna þess að hann lýsti sig vanhæfan til að stýra Rússarannsókninni svonefndu á Trump og félögum hans.
Ekki mikil breyting
Óvinsældir Trump samkvæmt nýju könnuninni eru verulega yfir langtímameðaltali sem vefsíðan Five Thirty Eight heldur utan um og sker hún sig frá öðrum könnunum sem birtar hafa verið undanfarinn mánuð. Ekki er því ljóst hvort að hún sé merki um að vinsældir forsetans hafi raunverulega dvínað verulega eða hvort um frávik er að ræða.Meðaltal kannana bendir til þess að 40,7% séu ánægð með störf Trump en 54,3% óánægð. Einstakar kannanir hafa ekki mikil áhrif á meðaltalið og því getur það tekið nokkurn tíma fyrir sveiflur í vinsældum að koma fram í því.
Nate Silver, ritstjóri Five Thirty Eight, bendir á að vinsældir Trump samkvæmt meðaltali kannana hafi ekki verið minni frá því í apríl. Á hinn bóginn hafi vinsældir hans aldrei farið yfir 42,7% á þeim tíma. Sveifla í vinsældum hans nú geti því ekki talist mikil.
On the one hand, Trump's approval rating in our average (40.7%) is now the lowest its been since April.
— Nate Silver (@NateSilver538) August 31, 2018
On the other hand, it's never been higher than 42.7% in that period, so we aren't talking big movement. https://t.co/j7XEedEnAf