Dagný Brynjarsdóttir verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum mikilvægu á móti Þýskalandi og Tékklandi en íslensku stelpurnar geta þar tryggt sér sæti á HM í fyrsta sinn.
Dagný er að koma til baka eftir barnsburð og hafði sett stefnuna á að ná leikjunum í september en það tókst ekki.
„Dagný er ekki tilbúin. Hún fór að finna til í baki eftir að hún byrjaði að æfa aftur og náði ekki að koma sér á nógu góðan stað,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska liðsins, á blaðamannafundi í dag.
„Ég held að ég hafi verið sá fyrsti sem fékk mynd senda af barninu af fæðingardeildinni. Hún var svo klár,“ sagði Freyr í léttum tón en bætti svo við:
„Hún ætlaði að ná þessum landsleikjum og fór af stað þegar læknar gáfu henni leyfi. Það gekk vel í byrjun. Hún hefur verið að glíma við meiðsli á liðbandi í baki og þau meiðsli tók upp,“ sagði Freyr en hann hafði miklu betri fréttir af Söru Björk Gunnarsdóttur.
„Sara Björk er til. Hún er búin að æfa í þrjár vikur og er einkennalaus,“ sagði Freyr og ef það er eitthvað sem Freyr óttast ekki þá er það standið á Söru Björk þó hún hafi ekki spilað leik.
