Handbolti

Stjörnurnar yfir­gefa þýsku deildina sem er ekki lengur sögð sú besta í heimi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nikola Karabatic var einn af þeim fyrstu sem fór fyrir tæpum áratug.
Nikola Karabatic var einn af þeim fyrstu sem fór fyrir tæpum áratug. vísir/getty
Þýski handboltinn hefst í kvöld þegar að Þýskalandsmeistarar Rhein-Neckar Löwen mæta bikarmeisturum Flensburg í leiknum um meistara meistaranna en þar verða Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson í eldlínunni með Ljónunum.

Deildin sjálf hefst svo um helgina en hún stendur á ákveðnum tímamótum því í fyrsta sinn í 22 ár verður enginn franskur leikmaður í þýsku 1. deildinni í handbolta sem hefur verið og markaðssett sig sem sterkustu deild í heimi.

Leikstjórnandinn Kentin Mahé var síðasti Frakkinn til að yfirgefa þýska boltann en hann er nú farinn til Veszprém í Ungverjalandi.

Fjallað er ítarlega um þessi tímamót á frönsku handboltasíðunni HandNews.fr þar sem efast er um að þýska deildin geti áfram kallast sú sterkasta í heimi.

Franska deildin virðist vera að taka yfir en þrjú frönsk lið voru í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. Til marks um fall þýsku liðanna í Meistaradeildinni hefur aðeins eitt þeirra, Kiel, komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar undanfarin fjögur ár.

Tvö undanfarin tímabil hefur ekkert þýskt lið komist í Final Four í Meistaradeildinni en þýsku liðin unnu keppnina fimm sinnum á átta árum frá 2007-2014 og voru þá reglulega tvö lið frá Þýskalandi í undanúrslitum.

„Þetta eru ekki bara Frakkarnir. Slóvenarnir fjölmenna ekki lengur til Þýskalands og og bestu Króatarnir eru ekki heldur þar fyrir utan nokkrar undantekningar. Þýskaland er ekki fyrsta val bestu handboltamanna heims lengur,“ segir franski handboltasérfræðingurinn François-Xavier Houlet.

Þýska deildin missti mikið af stjörnum í sumar. Svíinn Kim Ekdahl du Rietz og Daninn Henrik Toft Hansen fóru til PSG frá Löwen og Flensburg, Rene Toft Hansen fór frá Kiel til Veszprém en þangað fóru einnig Kentin Mahé og Petar Nenadic.

„Áður fyrr fóru allir bestu leikmennirnir eins og Jackson Richardson, Talant Dujshebaev, Daniel Narcisse, Nikola Karabatic, Momir Ilic og Filip Jicha til Þýskalands en þeir dagar eru taldir,“ sagði í grein Handball Woche um stjörnumissinn úr þýsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×