Stjarnan vann leikinn á litlu atriðunum og gerðu Blikarnir sig seka um einföld mistök í varnarleik á föstum leikatriðum. Þetta var mat Reynis Leóssonar, sérfræðings Pepsimarkanna, á leiknum í þætti gærkvöldsins.
„Þarna erum við að horfa á Blikavörnina gegn fjórum Stjörnumönnum. Níu Blikar og Baldur er einn ystur á fjær, getur hlaupið frítt á fjærstöngina. Þarna vil ég að það standi Bliki sitt hvoru meginn við hann svo það sé alltaf Bliki á fjærsta svæðinu,“ sagði Reynir þegar hann fór yfir fyrsta markið. Baldur Sigurðsson skoraði það upp úr aukaspyrnu Hilmars Árrna Halldórssonar í fyrri hálfleik.
„Þetta eru Stjörnumenn búnir að æfa. Stjarnan hefur ætlað að taka þessi föstu leikatriði á þessi fjærsvæði.“
„Í toppleikjum, hvort sem það er á Íslandi eða annars staðar, þá eru það þessi litlu atriði sem skipta máli.“
Stjarnan er nú þremur stigum á eftir Valsmönnum á toppi deildarinar. Liðin mætast annað kvöld í frestuðum leik úr 15. umferðinni. Valsmenn fara langt með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri.