Erlent

Geimskoti Parker-sólfarsins frestað til morguns

Kjartan Kjartansson skrifar
Delta IV-eldflaugin á skotpallinum á Canaveral-höfða á Flórída.
Delta IV-eldflaugin á skotpallinum á Canaveral-höfða á Flórída. Vísir/EPA
Ekki tókst að skjóta Parker-sólarkanna bandarísku geimvísindastofnunarinnar á loft í morgun eins og áætlað hafði verið. Geimskotinu hefur verið frestað til morguns en því gæti mögulega seinkað fram á mánudag.

Upphaflega var geimskotið áætlað klukkan 7:33 að íslenskum tíma nú í morgun en niðurtalningin var stöðvuð þegar fjórar mínútur voru til geimskotsins. Um tíma leit út fyrir að tilraun yrði gerð til að skjóta farinu á loft rétt fyrir klukkan 8:30 en ekkert varð af því þegar verkfræðingar fengu viðvörun um mögulegt tæknilegt vandamál við eldflaugina. Þá var of skammur tími eftir af skotglugganum til þess að koma Parker á loft í dag.

Parker-sólarkanninn á að rannsaka kórónu sólarinnar næstu sjö árin, meðal annars með það fyrir augum að varpa frekara ljósi á eðli sólvindsins, straum hlaðinna agna frá sólinni sem myndar segulljós þegar þær skella á lofthjúpi jarðarinnar.

NASA hefur til 23. ágúst í lengsta lagi til að koma Parker á loft í bili. Næsta tækifæri til þess gefst ekki fyrr en í maí. Ástæðan er afstaða jarðarinnar og Venusar en geimfarið á að nýta þyngdarsvið Venusar til að slöngva sér áfram í átt að sólinni.

Fréttin var uppfærð þegar geimskotinu var frestað í 24-48 klukkustundir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×