Enski boltinn

Þjálfari LSK: Óskastaða fyrir okkur að fá leikmann eins og Sísí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hege Riise með Sigríði Láru Garðarsdóttur.
Hege Riise með Sigríði Láru Garðarsdóttur. Mynd/lsk-kvinner.no
Hege Riise, þjálfari norska liðsins Lilleström, var himinlifandi að fá til sín Eyjakonuna Sigríði Láru Garðarsdóttur fyrir lokasprettinn á tímabilinu.

Lilleström er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar, í átta liða úrslitum bikarsins og í 32 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Eyjakonur hafa að litlu að keppa hér heima og Sigríður Lára er því að fara úr leikjum sem skipta litlu máli í hvern stórleikinn á fætur öðrum með Lilleström liðinu.

Heimasíða Lilleström er ánægð með íslenska miðjumanninn og ekki síst að það sást til hennar á lyftingaæfingu með liðsfélögum sínum aðeins skömmu eftir að hún gekk frá öllum pappírum.

Hege Riise fagnar líka komu íslensku landsliðskonunnar.

„Það er með mikilli ánægju að við bjóum Sísi velkomna til okkar í LSK Kvinner. Hún verður traustur liðstyrkur við okkar sterka lið. Það eru margir mikilvægir leikir framundan í haust og það var óskastaða fyrir okkur að fá leikmann eins og Sísí,“ sagði Hege Riise við heimasíðu LSK kvinner.

Lilleström mætir Vålerenga í átta liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í næstu viku en á morgun kemur í ljós hverjir verða mótherjar liðsins í 32 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Þær geta þó ekki mætt Þór/KA.

Í norsku deildinni hefur Lilleström tólf stiga forskot á Klepp þegar átta umferðir eru eftir. Það kemur því fátt í veg fyrir að Sigríður Lára verði Noregsmeistari á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×