Konan heitir Marie Laguerre og er 22 ára. Árásin átti sér stað fyrir utan veitingastað í París. Að sögn Laguerre var hún á leið heim úr vinnu á þriðjudag í síðustu viku þegar maðurinn hóf að áreita hana og niðurlægja með kynferðislegum aðdróttunum.
Laguerre segist hafa fengið sig fullsadda af hegðun mannsins og skipað honum að þegja. Maðurinn brást þá ókvæða við og kastaði í hana öskubakka en hæfði hana ekki. Laguerre og maðurinn áttu þar á eftir í einhverjum orðaskiptum þangað til maðurinn gekk skyndilega upp að henni og lamdi hana. Atvikið náðist á öryggismyndavél veitingastaðarins en myndbandið má sjá hér að neðan.
„Ég get ekki haldið mér saman og við munum ekki þegja lengur,“ skrifaði Laguerre í færslu um málið á Facebook.
Málið hefur vakið mikla reiði í Frakklandi og kalla margir eftir því að frönsk yfirvöld herði eftirlit með kynferðislegri áreitni á götum úti. Gert er ráð fyrir að fyrstu sektir fyrir áreitni af þessu tagi verði gefnar í haust en þeir sem uppvísir verða að brotunum munu þurfa að borga allt að 750 evra sekt, eða um 90 þúsund krónur íslenskar.