Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Hagstofunnar um drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð um síðustu mánaðamót. Frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar en frestur til athugasemda rann út fyrir helgi. Drögin byggja á vinnu starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í upphafi árs. Umsögn Hagstofunnar var sú eina sem barst.
Í drögunum er lagt til að laun þjóðkjörinna fulltrúa, dómara, saksóknara og ríkissáttasemjara verði ákveðin með fastri upphæð í lögum. Upphæðin er nú sú sama og fram kom í síðustu ákvörðunum kjararáðs fyrir hópana.

Í athugasemd Hagstofunnar er þess einnig getið að það fyrirkomulag sem lagt er til geti leitt til hringrásar. Það er, hærra meðaltal reglulegra launa hækkar laun þeirra sem falla undir frumvarpsdrögin. Til útskýringar má taka það dæmi ef fyrrgreint meðaltal hækkar um sjö prósent. Laun hópsins munu þá sjálfkrafa hækka um sjö prósent 1. maí. Þar sem hópurinn er reiknaður inn í meðaltalið kemur hækkun hans til með að hækka meðaltalið aftur. Sú hækkun hækkar launin á ný, sem hækkar meðaltalið, sem hækkar launin og svo framvegis. Hið sama gildir ef meðaltalið lækkar.
Samkvæmt tölum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu eru ríkisstarfsmenn um 21 þúsund talsins en stöðugildin eru eilítið færri. Í hópnum sem fellur undir hina sjálfvirku breytingu eru á annað hundrað manns og því má leiða að því líkur að breytingar á launum þeirra komi til með að hafa minniháttar áhrif.