Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir ekkert nýtt í því að forsvarsmenn atvinnulífsins haldi því fram að lítið sem ekkert svigrúm sé til launahækkana í næstu kjarasamningum líkt og kom fram hjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur formanni Samtaka iðnaðarins í gær.
„Við höfum heyrt áður þessa plötu hræðsluáróðurs. Henni hefur ávallt verið skellt á fóninni. Árið 2015 spáðu Samtök atvinnulífsins til dæmis 20% hækkun á verðbólgu vegna kjarasamninganna þá en raunin varð 2% verðbólga. Ég vísa þessu því til föðurhúsanna,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir stjórnvöld geta forðað gríðarlegri baráttu á vinnumarkaði.
„Þau þurfa að ná niður vöxtum, afnema verðtryggingu, taka húsnæðisliðinn út, minnka skattbyrði tekjulægstu hópanna, hækka barnabætur sem hafa nánast þurrkast hér út og svona mætti lengi telja, “ segir hann.
Vilhjálmur spáir vetrarhörku í kjaramálum taki stjórnvöld ekki við sér og komi á róttækum kerfisbreytingum.
„Ef að stjórnvöld verða ekki tilbúin þá held ég að sé óhætt að segja að frostaveturinn mikli sem var hér 1918 skelli á í kjaramálum,“ segir hann.
Stjórnvöld beri ábyrgð
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ er á sama máli og segir kjaramálin í höndum stjórnvalda.„Ábyrgðin á þessari stöðu er í höndum stjórnvalda og þau þurfa að koma með aðrar lausnir en hafa verið kynntar,“ segir hann.
Úrskurður kjararáðs um hækkun launa hafi hleypt illu blóði í launþega.
„Fólk er ekki sátt við það að þeim sé skenkt lakari staða en stjórnvöld hafa þegið. Þá er er búin að vera meiri verkfallstíðni á Íslandi vegna þessa en við höfum séð býsnla leng. Því er ekkert að linna því miður,“ segir hann.