Fótbolti

Fengu útkall í miðri vítaspyrnukeppni og misstu af sigurspyrnunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivan Rakitic leggur af stað í síðustu spyrnuna.
Ivan Rakitic leggur af stað í síðustu spyrnuna. Vísir/Getty
Króatíska þjóðin safnast örugglega fyrir framan sjónvarpstækin í kvöld þegar Króatar mæta Englendingum í undanúrslitaleik HM í fótbolta í Rússlandi.

Króatar eru komnir alla leið í undanúrslitin á HM þökk sé sterkum taugum leikmanna liðsins í vítakeppnum.

Króatar unnu nefnilega bæði Dani og Rússa í vítaspyrnukeppni. Króatar hafa reyndar klikkað á þremur vítaspyrnum en það kom ekki að sök. Þeir unnu Dani 3-2 og Rússana 4-3.

Í báðum tilfellum var það Ivan Rakitic sem skoraði úr síðustu vítaspyrnu Króata og skaut liðið áfram í næstu umferð.

Það gátu þó ekki allir séð Ivan Rakitic tryggja sigurinn á móti Rússum. Nú hefur verið gert opinbert skemmtilegt myndband frá slökkviliðsmönnum í Króatíu.

Slökkviliðsmennirnir eru miklir stuðningsmenn króatíska landsliðsins og fylgdust því spenntir með vítakeppninni á stöðinni, nær allir klæddir í treyju landsliðsins.

Slökkviliðsmennirnir voru hinsvegar líka á vaktinni og þeir fengu síðan útkall í miðri vítaspyrnukeppni eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.







Það var ekkert hik á mönnum þegar kallið kom og þá skipti engu þótt að þeir væru örfáum sekúndum frá því að sjá úrslitin ráðast.

Það urðu þó nokkrir þeirra eftir sem fögnuðu vel og gátu síðan væntanlega látið félaga sína vita í talstöðinni að króatíska landsliðið væri komið í undanúrslit HM í fyrsta sinn í tuttugu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×