Fótbolti

Southgate: Vorum mjög góðir í fyrri hálfleik en týndumst eftir jöfnunarmarkið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Southgate einn og yfirgefinn á vellinum í Moskvu
Southgate einn og yfirgefinn á vellinum í Moskvu Vísir/Getty
England tapaði undanúrslitaleiknum við Króata á HM og mun spila um bronsið á laugardag. Landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate sagðist geta séð jákvæðu punktana seinna, það væri erfitt í kvöld.

„Undir lokinn voru margir leikmenn á síðustu dropunum og við vorum komnir niður í 10 menn [markaskorarinn Kieran Trippier þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir að Englendingar höfðu notað allar sínar skiptingar]. Viðbrögðin frá stuðningsmönnunum sýndu að leikmennirnir gáfu allt í þetta,“ sagði Southgate við enska fjölmiðla eftir leikinn.

„Við höfum farið langan veg á ótrúlega stuttum tíma. Við komumst lengra en við héldum. Í kvöld vorum við ekki alveg til staðar en liðið verður sterkara vegna þessa. Þegar við horfum til baka munum við geta fundið eitthvað jákvætt en þetta er erfitt í kvöld.“

Kieran Trippier kom Englendingum yfir snemma leiks. Ivan Perisic jafnaði leikinn og Mario Mandzukic skoraði sigurmark í framlengingu.

„Við vorum virkilega góðir í fyrri hálfleik og sköpuðum okkur færi. Við týndumst aðeins eftir jöfnunarmarkið. Á þeirri stundu vorum við meira að halda fengnum hlut heldur en að reyna að stjórna leiknum.“

„Við náðum stjórninni aftur í framlengingunni en það munar litlu í útsláttarkeppnum. Þegar þú átt góða kafla gegn góðum liðum þá verður þú að nýta þá. Við þurftum annað mark. Við hættum að spila í 20 mínútur í seinni hálfleik,“ sagði Gareth Southgate.

Englendingar spila við Belga um bronsið á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×