Fótbolti

Ísland ástæðan fyrir því að Króatía gæti náð einstökum árangri í HM-sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lætur Dejan Lovren finna fyrir sér í leik liðanna á Laugardalsvelli fyrir rúmu ári.
Gylfi Þór Sigurðsson lætur Dejan Lovren finna fyrir sér í leik liðanna á Laugardalsvelli fyrir rúmu ári. Vísir/Ernir
Króatar, góðkunningjar íslenska fótboltalandsliðsins, eru komnir alla leið í úrslitaleikinn á HM í Rússlandi eftir sigur á enska landsliðinu í gær.

Ísland var tvisvar á vegi Króata á leið þeirra í þennan úrslitaleik, fyrst í undankeppninni og svo aftur í riðlakeppninni á mótinu sjálfu.

Það er einmitt árangur íslenska liðsins á móti Króatíu í undankeppninni sem gæti hjálpað Króötum að ná einstökum árangri í HM-sögunni.

Króatar eru nefnilega aðeins annað liðið í sögu HM sem kemst alla leið í úrslitaleikinn án þess að hafa verið fyrst í sínum riðli í undankeppninni.







Íslenska landsliðið vann riðilinn sinn þökk sé góðum endaspretti og 1-0 sigri á Króötum á Laugardalsvellinum sumarið 2017.

Króatar þurftu því að fara í umspilið þar sem þeir tryggðu sér farseðilinn til Rússlands með sigri á Grikkjum.

Aðeins eitt annað lið hefur komist alla leið í úrslitaleikinn án þess að hafa unnið sinn riðil í undankeppninni.

Þjóðverjar gerðu slík í HM-keppninni 2002 sem fór fram í Japan og Suður-Kóreu. Þýska liðið tapaði hinsvegar 2-0 í úrslitaleiknum á móti Ronaldo og félögum í brasilíska landsliðinu.

Þýska landsliðið varð í 2. sæti í sínum riðli í undankeppni HM 2002 en þann riðil unnu Englendingar. Þjóðverjar slógu Úkraínu út í umspilinu.

Króatar geta því, þökk sé íslenska landsliðinu, skrifað nýjan kafla í HM-sögunni vinni þeir heimsmeistaratitilinn á sunnudaginn. Ekkert lið hefur unnið heimsmeistaratitilinn án þess að hafa unnið sinn riðil í undankeppninni.

Króatísku leikmennirnir eru þegar búnir að ná sögulegum árangri í króatískri knattspyrnu með því að komast í sinn fyrsta úrslitaleik á stórmóti.

Hvort þeir fari alla leið á móti gríðarlega sterku frönsku liði kemur síðan í ljós í Moskvu eftir þrjá daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×