Fótbolti

Sven-Göran varar Englendinga við og segir Svíana verðugt verkefni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Svíinn fór á HM í tvígang með Englandi.
Svíinn fór á HM í tvígang með Englandi. vísir/getty
Sven-Göran Eriksson, fyrrum þjálfari enska landsliðsins, segir að það sé mikill misskilningur haldi Englendingar að þeirra bíði auðvelt verkefni á laugardaginn í átta liða úrslitunum.

Svíþjóð og Englendingar mætast á laugardaginn klukkan 14.00 en Eriksson er Svíi sem þjálfaði enska landsliðið á árum áður.

„Að skora gegn Svíþjóð er mjög erfitt. Þeir hafa sýnt það svo oft. Ef Englendingar halda að þetta verði auðvelt á laugradaginn er það mikill misskilningur. Þetta verður mjög erfitt,” sagði Sven-Göran í samtali við Sky Sports.

„Englendingar hafa betri einstaklings leikmenn til þess að gera eitthvað sérstakt. Kane er einn af þeim og Sterling annar en þegar ég segi að þetta verði erfitt, þá er það satt.”

„Í umspilinu um laust sæti á HM þá skoraði Ítalía ekkert á 180 mínútum og Þýskaland skoraði einungis eitt mark, alveg í lokin úr aukaspyrnu,” bætti Svíinn við.

Eriksson varð fyrsti erlendi þjálfarinn sem stýrði Englandi er hann tók við liðinu 2001. Hann stýrði liðinu á HM 2002 og 2006 en í millitíðinin tók hann liðið á EM 2004. Í tvígang datt liðið út á vítaspyrnukeppni en nú er öldin önnur.

„Til hamingju England og Southgate. Það var frábært að sjá England vinna í vítaspyrnukeppni. Andlega voru þeir mjög, mjög sterkir og ég er ánægður með þá. Ég held þeir geti farið langt því þeir eru með góða leikmenn og eru vel skipulagðir.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×