Rúnar var hinn léttasti þegar að hann spjallaði við fjölmiðla fyrir æfingu liðsins í dag en nú var komið að leikmönnum með númerin 9-15. Þannig er þetta sett upp fyrstu dagana.
„Þetta er búið að vera alveg geggjað. Það var tekið rosalega vel á móti okkur og veðrið er alveg frábært. Það er kannski aðeins of heitt en þá er betra að hafa það aðeins of heitt en of kalt,“ segir Rúnar Alex.

„Ég upplifði þetta ekki sem þyngsli eða neitt svoleiðis. Það er búið að dramatísera þetta smá. Ég get samt alveg viðurkennt að við vorum voðalega rólegir og ekki að öskra hvorn annan áfram. Það var líka lítið spjall í gangi,“ segir Rúnar.
„Stemningin myndast svolítið í kringum hvernig reynslumestu mennirnir haga sér sem í þessu tilviki eru Gummi [Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari Íslands] og Hannes. Við [Frederik] reynum bara svolítið að herma eftir því sem að þeir gera vegna þess að við erum ungir og erum að kynnast því hvernig þetta virkar.“
„Kannski var meiri stemning áður en þetta var eitthvað sem að Hannesi fannst við þurfa að laga og við gerðum það. Ég get alveg sagt það núna að það er miklu skemmtilegra á æfingum núna þegar að menn eru að öskra hvorn annan áfram. Það voru engin þyngsli eða stress fannst mér,“ segir Rúnar.

Í raun veit enginn hvað Heimir og Guðmundur eru að hugsa með fyrsta varamann fyrir Hannes og þeir halda spilunum þétt að sér. Svo þétt að Rúnar sjálfur veit ekkert hvar hann stendur.
„Ég hef ekki hugmynd um hvort ég sé númer tvö eða þrjú. Ég væri alveg til í að fá skýrari svör. Þetta er erfið spurning og í raun skiptir kannski ekki öllu hver er númer tvö eða þrjú. Það sem skiptir máli er hver er að fara að spila en sama hvar ég er í röðinni undirbý ég mig eins fyrir hvern einasta leik. Það væri bara fínt upp á andlega hlutann að vera með einhver svör,“ segir Rúnar Alex Rúnarsson.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.