Innlent

„Án hjúkrunar er ekkert heilbrigðiskerfi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skortur á hjúkrunarfræðingum hefur víða áhrif.
Skortur á hjúkrunarfræðingum hefur víða áhrif. Vísir/VIlhelm
Hjúkrunarráð Landspítalans lýsir yfir þungum áhyggjum af skorti á hjúkrunarfræðingum. Þá brýnir ráðið fyrir stjórnvöldum að standa við orð sín og bæta stöðu hjúkrunar á spítalanum.

Í tilkynningu segir að skortur á hjúkrunarfræðingum hafi margvíslegar afleiðingar. Opnum sjúkrarúmum á Landspítala fækki til að mynda stöðugt, sem hafi einkum áhrif á öryggi sjúklinga og þjónustu. 49 þessara sjúkrarýma voru lokuð um mánaðamótin.

Þar sem mönnun er ábótavant aukist jafnframt bæði tíðni endurinnlagna og dánartíðni sjúklinga og þá auki mannekla hættu á kulnun, mistökum og brottfalli úr starfi.

Þá hefur verið greint frá því að einu sérhæfðu bráðamóttöku landsins fyrir hjartasjúklinga verði lokað í sumar og starfsemin flutt í Fossvog. Í tilkynningu hjúkrunarráðs segir að lokunin sé afleiðing skorts á á hjúkrunarfræðingum.

Ráðið segir stjórnendur Landspítala þó hafa lagt mikla vinnu í umbætur á spítalanum en nú sé tími til að stjórnvöld geri eitthvað í málunum þar eð Landspítali þurfi að vera samkeppnisfær við aðra atvinnurekendur sem kunna að meta færni hjúkrunarfræðinga.

„Stjórnvöld á Íslandi hafa lýst því yfir að þau vilji standa með heilbrigðiskerfinu, nú er tími til að standa við yfirlýsingarnar. Án hjúkrunar er ekkert heilbrigðiskerfi. Hjúkrunarráð Landspítala vill brýna við ráðamenn til að standa við orð sín og gera allt það sem í þeirra valdi stendur til að bæta stöðu hjúkrunar á Landspítala!“ segir í yfirlýsingu.

Fréttir hafa verið fluttar af alvarlegum skorti á hjúkrunarfræðingum á Landspítala undanfarin misseri, sérstaklega í samhengi við sumarlokanir á spítalanum. Þá sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í pistli sínum í dag að spítalinn finni rækilega fyrir því í sumar að hér á landi skorti tilfinnanlega hjúkrunarfræðinga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×