Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson setti mynd á Twitter í kvöld þar sem sjá má íslenska hópinn og fyrir miðri mynd er heldur Jón Daði á íslenskri landsliðstreyju merktri Ikeme númer 1. Við myndina skrifaði Selfyssingurinn „Við allir í íslenska liðinu stöndum með þér Carl Ikeme.“
Ikeme háir baráttu við krabbamein og heiðruðu Nígeríumenn hann með því að skipa hann 24. meðlim hóps þeirra á HM, en aðeins 23 leikmenn mega vera í HM hóp hverrar þjóðar.
Markvörðurinn er aðeins 32 ára og var hann í lykilhlutverki í undankeppninni með Nígeríu þar sem þeir unnu sinn undanriðil.
Ikeme er á mála hjá enska Championshipdeildar-liðinu Wolverhamtpon Wanderers og voru hann og Jón Daði liðsfélagar tímabilið 2016-17. Ikeme tók ekki þátt í neinum leik með Wolves á nýliðnu tímabili, en hann greindist með hvítblæði í júlí á síðasta ári.
All of us in @footballiceland are with you @Carl_Ikemepic.twitter.com/LMy4fumDj5
— Jon Dadi Bodvarsson (@jondadi) June 17, 2018