Fótbolti

Ólafur Ingi: Þetta gefur þessum krökkum alveg rosalega mikið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason var einn þeirra landsliðsmanna sem fór í golf með bakhjörlum KSÍ í gær. Landsliðshópurinn er fullur af góðum kylfingum en Ólafur Ingi er ekki einn þeirra.

„Ég er ekki góður í golfi. Ég spilaði síðast fyrir fimm árum í Belgíu. Ég var lélegur þá og er enn þá lélegur. Þetta var samt bara gaman. Fyrir mig var gaman að slá nokkra bolta og reyndar slá þá langt út fyrir en það er allt í lagi,“ segir Ólafur Ingi léttur.

„Það var smá pressa í upphafshöggunum hjá mönnum en aðallega var þetta bara til gamans gert. Við erum misgóðir í golfi en það voru allir í stuði sem er aðalatriðið.“

Ólafur Ingi segist ekki góður í golfi.vísir/vilhelm

Verður raunverulegra

Aðeins níu dagar eru þar til heimsmeistaramótið í Rússlandi hefst en strákarnir okkar fara út á laugardaginn. Þetta verður bara raunverulegra með hverri mínútunni.

„Nú er spennan og fiðringurinn að „kikka“ inn. Nú erum við aftur á móti að gera okkur klára fyrir leikinn á móti Gana. Það er gaman að fá Afríkuþjóð hérna heim. Það verður erfiður en skemmtilegur leikur og svo erum við bara á leiðinni út á laugardaginn,“ segir Ólafur Ingi.

„Þegar að maður stígur upp í vélina verður þetta virkilega raunverulegt að við séum á leiðinni á HM. Undirbúningurinn hér heima er búinn að vera góður. Maður er ekkert búinn að hugsa of mikið um þetta hérna heima á Íslandi.“

Ólafur Ingi á son með Downs-heilkennið en hann var einn þeirra nemenda úr Klettaskóla sem leikmenn íslenska landsliðsins og þess norska leiddu inn á völlinn fyrir leik þjóðanna á laugardaginn. Ljóst var að hann og skólafélagar hans nutu stundarinnar gríðarlega.

Ólafur Ingi í Laugardalnum í dag.vísir/böddi tg

Allir rosalega glaðir

„Hann ætlaði bara að taka miðjuna á móti Noregi,“ segir Ólafur Ingi og hlær við.

„Þetta var alveg geggjað og frábært frumkvæði frá KSÍ að bjóða Klettaskóla að gera þetta. Allir þessir krakkar voru himinlifandi og foreldrar þeirra líka.“

„Þetta gefur þessum krökkum alveg ótrúlega mikið. Ég held að fólk átti sig ekki alveg á því hversu það gefur þessum krökkum að leiða leikmennina út, fá að vera með og vera aðeins í sviðsljósinu.“

„Það voru allir rosalega glaðir með þetta og sumir foreldrarnir áttu erfitt með að fá börnin úr landsliðsbúningnum. Sumir sváfu í honum einhverjar tvær til þrjár nætur,“ segir Ólafur Ingi Skúlason.

Allt viðtalið við Ólaf má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×