Fótbolti

Markvörðurinn sem féll fær sénsinn í síðasta leik Englands fyrir HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jack Butland.
Jack Butland. vísir/getty
Jack Butland, markvörður Stoke sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, verður í marki enska landsliðsins í síðasta vináttuleik liðsins fyrir HM annað kvöld.

Englendingar taka þá á móti Kosta Ríka á Wembley en Sky Sports hefur heimildir fyrir því að Butland byrji leikinn. Hann sat á bekknum þegar að England vann Nígeríu um síðustu helgi.

Jordan Pickford, markvörður Everton, byrjaði þann leik og fékk treyju númer eitt í enska hópnum fyrir HM 2018 í Rússlandi þannig að flest benti til þess að hann verður markvörður númer eitt á HM.

Butland gefur þó ekki upp vonina en hann ætlar að sanna sig gegn Kosta Ríka og reyna að tryggja sér byrjunarliðssæti annað kvöld.

„Þar til að það verður tilkynnt að ég byrji ekki á HM mun ég gefa allt mitt í þetta til þess að verða númer eitt. Mér er alveg sama númer hvað menn eru,“ segir Butland.

„Við sjáum bara til hvað gerist. Ég geri mitt allra besta og vonandi gengur þetta upp,“ segir Jack Butland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×