Innlent

Óska eftir vitnum að „fólskulegri líkamsárás“ við Engjateig

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einn ökumaðurinn sem lögregla hafði afskipti af í nótt reyndi að tálma störf lögreglu.
Einn ökumaðurinn sem lögregla hafði afskipti af í nótt reyndi að tálma störf lögreglu. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að líkamsárás sem átti sér stað á Engjateig í Reykjavík eftir hádegi mánudaginn 4. júní, en tilkynnt var um málið kl. 14.19. Greint var frá málinu á Vísi í vikunni en árásarmaðurinn réðst á þolandann með reiðhjóli.

Atvikið átti sér stað á eða við göngustíg sem liggur á milli Engjateigs 9 og 11 að Sigtúni. Þar veittist maður að karlmanni um fertugt sem var á göngu með hundinn sinn.

Árásin var fólskuleg, að því er segir í tilkynningu lögreglu, en árásarmaðurinn notaði m.a. reiðhjól sem barefli, eins og áður sagði.

Karlmaður um tvítugt var úrskurðaður í mánaðarlangt gæsluvarðhald grunaður um verknaðinn. Vegfarandinn brotnaði í andliti við árásina og var illa skorinn og marinn. Hafði ræninginn síma mannsins með sér og gat því vegfarandinn ekki hringt eftir hjálp. Hann náði þó að gera fólki sem var nálægt viðvart sem hafði samband við lögreglu. Var ræninginn handtekinn í Lágmúla um það bil klukkustund síðar.

Lögreglan biður þá sem kunna að hafa orðið vitni að líkamsárásinni að hafa samband í síma 444 1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið hermann.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×