Fótbolti

Eiður Smári var í besta sigurliði allra tíma í Meistaradeildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen með Meistaradeildarbikarinn.
Eiður Smári Guðjohnsen með Meistaradeildarbikarinn. Vísir/AFP
Eiður Smári Guðjohnsen var hluti af besta liði sem nokkur tíman hefur sigrað Meistaradeild Evrópu að mati fótboltasérfræðinga FourFourTwo. Eiður vann Meistaradeildina með Barcelona árið 2009 eftir sigur á Manchester United í úrslitaleiknum í Róm.

Real Madrid og Liverpool mætast í úrslitum sterkustu félagsliðakeppni í heimi, Meistaradeildar Evrópu, á morgun á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði. Í tilefni þess setti fótboltasíðan FourFourTwo saman lista þar sem sigurliðum keppninnar var raðað eftir styrkleika.

Lið Liverpool sem vann kraftaverkið í Istanbúl árið 2005 er í 15. sæti og Manchester United liðið sem vann þrennuna undir Sir Alex Ferguson árið 1999 er í öðru sæti listans en á toppnum trónir Barcelona tímabilið 2008-09.

„Fyrsta tímabil Pep Guardiola hjá Barcelona var hans besta, áður en hann varð heltekinn af taktík. Það var frábært að horfa á þá spila. Boltinn flaut á milli manna og engar stórstjörnur stóðu upp úr. Þetta var áður en allt þurfti að mótast í kringum Lionel Messi,“ segir í umfjölluninni.

Í liðinu voru menn eins og Xavi og Andres Iniesta á toppi síns ferils, Samuel Eto'o og Thierry Henry byrjuðu í framlínunni og Yaya Toure var upp á sitt besta.

„Þetta þrennulið Barcelona er lang besta liðið sem hefur unnið Meistaradeildina, engin spurning.“

Eiður Smári var á sínu þriðja tímabili hjá Barcelona á þessum tíma en hann kom til liðsins 2006. Hann kom við sögu í fimm leikjum í Meistaradeildinni þetta tímabil, kom oftast inn sem varamaður en var þó í byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn í 2-5 sigri á Sporting í riðlakeppninni. Eiður Smári var ónotaður varamaður í úrslitaleiknum sjálfum.

Hann fór svo yfir til Mónakó sumarið 2009.

Listann í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×