Innlent

Ölvun og óspektir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það gekk mikið á í miðborginni í nótt.
Það gekk mikið á í miðborginni í nótt. Vísir/GVa
Mikil ölvun og fíkniefnaneysla var á höfuðborgarsvæðinu í nótt ef marka má dagbók lögreglunnar. Hið minnsta sjö ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna og tveir miðbæjargestir voru handteknir grunaðir um að hafa beitt ofbeldi.

Fyrri ofbeldismaðurinn hafði veist að dyravörðum á skemmtistað skömmu eftir miðnætti. Er hann sagður hafa reynt að slá til þeirra með hnefahöggum. Maðurinn var handtekinn og fluttur í fangamóttökuna á Hverfisgötu. Hann var hins vegar látinn laus að loknu spjalli við lögreglumenn og upplýsingaöflunar á vettvangi.

Þá var maður, sem sýnt hafði ógnandi hegðun á skemmtistað í miðbænum, handtekinn á fimmta tímanum í nótt. Þegar lögregla kom á staðinn voru dyraverðir búnir að yfirbuga manninn og héldu honum niðri. Maðurinn er sagður hafa neitað að yfirgefa staðinn og streittist á móti tilraunum lögreglumann og dyravarða. Að lokum tókst að færa manninn í lögreglubíl og flytja hann á lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Þar er hann sagður hafa haldið uppteknum hætti, var áfram með ógnandi tilburði og neitaði að fara að fyrirmælum. Þegar það var ljóst var ákveðið að vista manninn í fangageymslu vegna ástands þar til af honum rennur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×