Greint er frá þessu á Facebook-síðu Raddar unga fólksins en umræddir flokkar fengu allir einn mann inn í bæjarstjórn í nýafstöðnum kosningum. Ef þeir ná saman mynda þeir eins manns meirihluta í bæjarstjórn en Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna inn í bæjarstjórn.
Áður mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Listi Grindavíkur meirihluta í bæjarstjórn. Listi Grindavíkur var með einn í bæjarstjórn en fékk engan þetta árið.
Af flokkunum fjórum sem ætla í viðræður í ár hlaut Rödd unga fólksins flest atkvæði, eða 298 talsins, en líkt og nafnið gefur til kynna er listinn skipaður ungum Grindvíkingum.
Helga Dís Jakobsdóttir, oddviti flokksins, segir í samtali við Vísi að flokkurinn hafi rætt við alla flokka í gær sem fengu kjörna fulltrúa í bæjarstjórn.
Eftir miklar samræður var ákveðið að hefja viðræður við Framsóknarflokk, Miðflokk og Samfylkinguna.
„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu,“ segir Helga Dís um árangur flokksins í kosningunum.
Hún segir ekki ljóst hvenær viðræðurnar hefjast en ákvörðunin var tekin seint í gærkvöldi.
„Við munum leggja áherslu á að rödd okkar heyrist í þessum viðræðum og við munum leggja áherslu á það sem við höfum talað fyrir í kosningabaráttunni. Um opna og þjónustumiðaða stjórnsýslu og opið bókhald. Það þarf líka að leysa daggæslu mál sem fyrst. En það eru líka mörg önnur mál,“ segir Helga Dís.