Í samtali við Morgunblaðið segir Ragnar að ástæðuna megi rekja til tregðu ASÍ til að taka niður auglýsingu um kaupmáttaraukningu. Auglýsinguna, sem birtist síðastliðinn föstudag, má sjá hér að neðan.
Ragnar hefur áður lýst yfir vantrausti á Gylfa en þetta yrði þó í fyrsta sinn sem formaður VR gerði það með formlegum hætti.
Sjá einnig: Formaður VR: Blekkingarleikur að tala um góðæri og fordæmalausan kaupmátt
Í Morgunblaðinu kemur jafnframt fram að Ragnar hafi sent tölvupóst á félagsmenn ASÍ í vikunni þar sem hann óskaði eftir því að auglýsing, sem birtist á Facebook-síðu ASÍ, yrði fjarlægð.
Annars myndi hann, ásamt öðrum formönnum aðilarfélaga ASÍ, lýsa yfir fyrrnefndu vantrausti á forsetann.
Ragnar segir jafnframt í Morgunblaðinu að VR muni benda á það eftir helgi hvernig kaupmáttarvísitalan „kemur rangt fram“ í myndbandinu. Þá þyki honum jafnframt annkannalegt hvernig ASÍ skautar framhjá efnahagshruninu í myndbandi sínu.