Innlent

Fær tvær milljónir vegna ólögmætrar uppsagnar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg.
Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg. Vísir/Stefán
Eigendum hótelsins Black Pearl hefur verið gert að greiða fyrrverandi starfsmanni fyrirtækisins tæpar tvær milljónir króna vegna ólögmætrar uppsagnar. Töldu eigendur hótelsins að hann hefði haft hlutastörf sem samræmdust ekki hagsmunum þess.

Umræddur starfsmaður hóf störf hjá Black Pearl í gestamóttöku í árslok 2014 en var sagt upp fyrirvaralaust í september 2016. Ástæðan var sú að maðurinn hafði sést nota annað tölvupóstfang en vinnunnar og að hann hefði verið í samskiptum við ferðaþjónustufyrirtækið Tripical. Framkvæmdastjóri þess fyrirtækis hafði áður starfað hjá Black Pearl en eigendur hótelsins vildu engin samskipti við Tripical eftir að framkvæmdastjórinn hvarf frá hótelinu.

Eigendur hótelsins töldu starfsmanninn hafa brotið gegn ákvæði ráðningarsamnings síns sem kvað á um að hann ætti að helga vinnuveitanda „óskiptan vinnutíma sinn, athygli og framlag“. Það hefði hann ekki gert þegar hann sinnti eigin fyrirtækjum á vinnutíma hjá hótelinu. Þá hefði einnig falist trúnaðarbrot í því að vera í samskiptum við Tripical þrátt fyrir fyrirmæli þess efnis að svo skyldi ekki gert. Einnig hefði starfsmaðurinn vísað á önnur hótel en hjá „Kalla í Pelsinum“ en þangað átti starfsfólk að vísa gestum væri Black Pearl uppbókað.

Hótelið rifti ráðningarsamningi við manninn og taldi sig ekki þurfa að greiða honum laun í uppsagnarfresti. Héraðsdómur féllst ekki á að fyrir lægju ástæður sem réttlættu fyrirvaralausa uppsögn án launa í uppsagnarfresti. Því var fallist á kröfu starfsmannsins. Hótelið þarf einnig að greiða honum 900 þúsund í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×