Innlent

Eðlilega ósáttur segir verjandinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sindri Þór Stefánsson í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Sindri Þór Stefánsson í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Fréttablaðið/Ernir
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði Sindra Þór Stefánsson í eins mánaðar farbann í gær. Sindri er grunaður um aðild að þjófnaði á 600 Bitcoin-tölvum úr þremur gagnaverum en engin ákæra hefur verið gefin út á hendur honum.

Sindri lýsti á Facebook furðu sinni á því að þrír lögreglumenn hefðu verið sendir til Amsterdam til að sækja hann og flytja heim. „Kom svo fyrir dómara í Reykjanesbæ þar sem mér var sleppt út en með farbanni. Til hvers var eiginlega verið að auglýsa eftir mér?“

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra, segir skiljanlegt að Sindra finnist óeðlilegt að lýst hafi verið eftir honum og hann sagður strokufangi.

„Maðurinn lýsir yfir sakleysi sínu þannig að það er eðlilegt að hann sé ósáttur við að vera dæmdur í gæsluvarðhald í tólf vikur. Svo fer hann úr fangelsi þegar honum er sagt að hann sé frjáls ferða sinna,“ segir Þorgils.

Þá segir Þorgils rannsóknina hafa tekið duglegan tíma. Það sé hins vegar erfitt fyrir hann að meta hvort sá tími hafi verið of langur í ljósi umfangs málsins.

„En jú, mér finnst vera liðinn mjög langur tími. Margir mánuðir. Hvort þetta er óeðlilega langur tími er allt annar handleggur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×