Erlendir ökumenn tveggja bifreiða greiddu samtals á þriðja hundrað þúsund í sekt eftir að þeir voru gripnir við utanvegaakstur á Dyrhólaey í dag.
Höfðu þeir ekið rúmlega 100 metra utan vegar í gróðurlendi á Háey, skammt frá Dyrhólavita, að því er segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi.
Ökumennirnir fengu viðeigandi afgreðslu fyrir brot gegn banni við akstri utan vega og greiddu sem fyrr segir samtals á þriðja hundrað þúsund í sekt.
