Innlent

Lottóvinningur að fá norskan sérfræðing í sjálfsvígsforvörnum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Einn helsti sérfræðingur Noregs á sviði forvarna gegn sjálfsvígum og forstöðumaður sjálfsvígsforvarnaseturs ungmenna segir afar mikilvægt að Íslendingar sinni málaflokknum af festu og á mörgum vígstöðvum. Framkvæmdastjóri á geðsviði Landspítalans er himinlifandi með að hann ætli að þjálfa starfsfólk spítalans.

Lars Mehlum, forstöðumaður sjálfsvígsforvarnasetur ungmenna í Noregi var einn af fyrirlesurum á málþingi geðsviðs Landspítala um sjálfsvígsforvarnir í vikunni. Hann segir að það starf sem setrið sinni skili margs konar ávinningi.

„Starfið hefur aukið skilningu og þekkingu í röðum hjálparstarfsmanna og einnig ýmsum hópum í samfélaginu. Við það hafa viðbrögð samfélagsins aukist til muna. Þannig eru mun fleiri sem axla ábyrgðina við að fyrirbyggja sjálfsmorð því við höfum kallað til fleiri aðila að sinna þessari vinnu. Einnig hefur vinna á sviða vísindanna aukist. Við höfum rannsakað hvaða áhrif hvers kyns inngrip hefur og því höfum við þekkingu á inngripsaðgerðum sem nýtist vel,“ segir Mehlum.

Hann segir mikilvægt að Íslendingar sinni málaflokknum af sömu festu og ætlar að þjálfa starfsfólk á geðsviði Landspítalans í haust. Framkvæmdastjóri geðsviðs er himinlifandi með að fá hann til liðs við spítalann.

„Það er eins og að vinna í lottóinu. Þetta er þungavigtarvísindamaður og er mjög áhugasamur um að hjálpa okkur á litla Íslandi að gera betur. Þetta er frábært að vera kominn í samband við hann. Hann mun koma í haust með þjálfunarprogram fyrir okkur þannig að það eru bara spennandi tímar framundan,“ segir María Einarsdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×