Innlent

Breytingar á strandveiðilögum samþykktar á Alþingi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa án þess að sá afli teljist til hámarksafla.
Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa án þess að sá afli teljist til hámarksafla. vísir/stefán
Frumvarp atvinnuveganefndar um strandveiðar var samþykkt á Alþingi nú síðdegis. Samkvæmt frumvarpinu munu strandveiðar takmarkast við tólf veiðidaga fyrir hvern bát innan hvers mánaðar á veiðitímabilinu.

Sjávarútvegsráðherra getur nú stöðvað strandveiðar þegar veiðiheimildin er fullnýtt. Valdið var áður hjá Fiskistofu.

„En ráðherra hefur líka heimild samkvæmt reglugerð til að bæta ónýttum heimildum inn í kerfið þegar líður á sumarið ef þörf verður á,“ sagði Lilja Rafney Olsen, formaður nefndarinnar í viðtali við Stöð 2 í fyrradag. Hins vegar sé ólíklegt að til þess þurfi að koma enda verði heimildir auknar í 11.200 tonn eða um tæplega fimmtán hundruð tonn.

36 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en tveir voru á móti. Lögin öðlast þegar gildi og gilda til og með 31. ágúst 2018.

Lilja Rafney segir að með lögunum myndist aukinn sveigjanleiki og frekara öryggi. Menn geti valið sér þann dag sem bestur sé til að róa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×