Erlent

Vinsældir Trump ekki meiri frá hveitibrauðsdögunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fleiri gefa Trump nú þumalinn upp en áður.
Fleiri gefa Trump nú þumalinn upp en áður. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti nýtur stuðnings 40% svarenda í nýrri skoðanakönnun Washington Post og ABC-sjónvarpsstöðvarinnar. Vinsældir hans hafa ekki mælst meiri frá því á fyrstu hundrað dögunum eftir að hann tók við embætti. Rúmur helmingur svarenda er engu að síður enn óánægður með forsetann.

Síðast þegar þessi könnun var gerð í janúar sögðust 36% svarenda hafa velþóknun á störfum Trump sem forseta og hafa vinsældir hans því aukist aðeins síðustu vikurnar. Forsetinn mælist nú með 40,8% stuðning samkvæmt útreikningum vefsíðunnar Five Thirty Eight á meðaltali skoðanakannanna. Rúm 53% eru óánægð með Trump á sama mælikvarða.

Svarendur í könnuninni virðast gera greinarmun á persónu Trump annars vegar og frammistöðu hans í einstökum málaflokkum hins vegar. Þrátt fyrir að 61% hafi neikvæða sýn á forsetann sem manneskju telur hátt í helmingur hann halda vel á efnahagsmálum, 46% gegn 48% sem telja hann ekki standa sig vel í málaflokknum.

Athygli vekur að aðeins 32% svarenda líst vel á Trump sem manneskju sem bendir til þess að einhver hluti hans eigin stuðningsmanna hafi ekki mikið persónulegt álit á forsetanum. Þannig segjast 11% hafa velþóknun á Trump í embætti en kunna ekki að meta hann sem manneskju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×